Sr. Hjalti Jón Sverrisson.
Við tölum um uppskeru og von í þemamessu dagsins. Það væri ekki skrýtið ef einhver hefði búist við að heyra dæmisöguna um sáðmanninn, þess í stað heyrðum við skírnarfrásögn Markúsarguðspjalls. ,,Þessi er minn elskaði sonur, Þessi er mín elskaða dóttir, Þessi er mitt elskaða bur.” Þetta loforð skírnarinnar. Guðspjöllin eiga öll sín einkenni, en skírnin er eitt af sameiginlegum upphafsstefjum þess andlega ferðalags sem við förum á þegar við lesum guðspjöllin. Við erum á andlegu ferðalagi, haustið hefur á ný innreið sína í lífi okkar og hjá mörgum þýðir það breytingar, en hjá öðrum er takturinn kunnuglegur. Haustið og starfið er áfram að fara af stað hjá okkur í Laugarneskirkju og í dag tökum við sérstaklega á móti fermingarbörnum vetrarins, sem vilja staðfesta skírn sína. Ég fór að hugsa um hvað skipti mestu þegar við hittumst í fyrsta sinn og komst að því að aðalatriðið er þetta: Okkur langar að kynnast fermingarbörnunum, það er dýrmætt að fá tækifæri til þess að kynnast betur í vetur. Vilji okkar er að þið, unga fólkið sem eruð að fermast og eins þið foreldrar og fjölskyldur, finnið að við viljum vera hér til staðar og við erum hér til staðar, fyrir ykkur. Annað: Þetta verður alltaf lærdómur og þá er ég ekki að tala um utanbókarlærdóm. Við fáum tækifæri til að læra af hvort öðru. Við munum öll gera mistök á leiðinni, getum þá leitast við að taka viðeigandi ábyrgð, hvert og eitt. Aðalatriðið: Að vera ekta. Vera við sjálf. Þetta á við um okkur öll. Fred Rogers sagði: “The world needs a sense of worth, and it will achieve it only by its people feeling that they are worthwhile.” … og : “It's our job to encourage each other to discover that uniqueness and to provide ways of developing its expression.” Fermingarbörnin leggja af stað í fermingarfræðsluna; andlegt ferðalag. Nú er okkar að hvetja þau og styðja. Við erum öll á andlegu ferðalagi. Við erum á ferðalagi með Guði og það er ástæða fyrir kirkjunni; gott að eiga ferðafélaga. Ég held við þurfum öll á stuðningi að halda. Því þegar við lesum frásögnina af skírninni í samstofna guðspjöllunum; Matteusar-, Markúsar-, Lúkasar.. Hvað gerist næst eftir skírnina? Jesús heldur í eyðimörkina. Er freistað, kannski væri best að gefast upp? Við mætum áskorunum og Kristur segir: Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Hvernig er það annars í lífinu, þekkjum við það ekki? En í Galatabréfinu segir: Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp. Ég man alltaf eftir því, í upphafi heimsfaraldursins Covid19, þá sagði vinkona mín mér frá ítölskum lækni, í miðjum hörmungum þeirra, sem sagði að við ættum að vera að velta fyrir okkur þessari spurningu: ,,Hvað þýðir að vera samfélag?” Álags- og átakaþættir birtast okkur í samfélaginu, stundum svo sárt, þá er auðvelt að verða sorgmæddur. Saga heimsins, gömul og ný, ætli þetta heiti ekki heimshryggð? En gömul saga og ný er líka uppskeran. Og með uppskerunni fullvissan um að vera elskuð börn Guðs, elskað bur, elskuð dóttir, elskaður sonur. Hvað þýðir að vera samfélag? Hvað þýðir að vera kirkja? Í pistli sem sóknarpresturinn okkar hér í Laugardalsprestakalli, sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir, skrifaði og birtist nú um helgina segir m.a.: ,,…þakklát fyrir kirkjuna mína sem er, eins og lífið, gölluð en gefandi.” Gölluð en gefandi. Því ætti að fylgja frelsi að geta gengist við því, en ekki þrælbundin skömmin. Mestu skiptir að kirkjan sé staður þar sem við séum örugg. Staður fyrir öll. Við sjáum það, í kirkjunni og í samfélaginu; þetta er auðvelt að segja en við erum oft alveg glötuð í að fylgja þessu eftir. En hversu góðar fréttir, þegar það tekst. Hér í Laugarneskirkju vorum við um tíma með góðverkaklúbb, þá komu krakkarnir hingað og gerðu góðverk (oft var bakað og þá var mikilvægt að smakka afraksturinn, að sjálfsögðu). Í upphafi samverunnar settumst við alltaf saman í hring og við vorum með lið sem kallaðist ,,Meistaraverk & Mistök”. Þá sátum við saman og sögðum frá meistaraverkum okkar og mistökum síðustu daga. Ekki annað hvort, heldur bæði. Það held ég reyndar að hafi verið hollt hinni íslensku þjóðarsál að geta líka sagt og gengist við því sem vel er gert. Á sama tíma og gangast við því að hafa klúðrað almennilega! Það er heilbrigði að geta rúmað þetta allt. Því ef það er ekkert rými fyrir mistök; þá er ekki heldur rými fyrir lærdóminn. Góðu fréttirnar, í gegnum allt, er Loforð skírnarinnar; við förum veginn aldrei ein, við erum fullkomlega meðtekin, ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem elskar okkur af fyrra bragði. Þá gerist stundum þetta merkilega augnablik, andartak, tími utan tímans.
Þetta augnablik. Þegar þú tengist kjarna þínum. Og það er ekkert eftir. Nema eitthvað sem er svo ekta. Svo tært. Og þú finnur, eilífan sannleika, sem hvíslar að þér: Þetta er mín elskaða dóttir, þetta er mitt elskaða bur, þetta er minn elskaði sonur. Ég vona að þú eigir þetta augnablik. Ég vona að þú sjáir alla fegurðina sem býr í þér sem manneskju Ég vona að þú finnir tengingu við Guð í hjarta þínu hér í vetur, hvort sem hún sé gömul, hlý og kunnugleg, eða ný uppgvötvun og uppskera. Ég vona að við biðjum saman. Ég vona að við getum lært saman. Ég vona að við getum skapað saman. Ég vona að við getum hlegið saman og ég vona að við getum grátið saman. Ég vona að við getum huggað hvort annað. Ég vona að við getum iðrast þess sem þarfnast að iðrast. Ég vona að við getum gert meistaraverk og mistök því það þýðir að við erum að halda áfram að læra. Ég vona að við getum fagnað saman og munum í gegnum allt að lífið er fagnaðarerindi. Ég vona að við munum loforð Guðs til okkar. Ég vona að við finnum Guð vera lifandi veruleika í lífum okkar. Ég vona að við höldum áfram að uppskera saman. Dýrðin sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.
Comments