Prestsþjónusta
Guðsþjónustur helgidaganna og helgar athafnir þjóðkirkjunnar, svo sem skírn, ferming, brúðkaup, útför, eru áningarstaðir á lífsins leið, með veganesti orðs og atferlis sem styrkja samfélagið milli fólks og kynslóða og efla von og lífsþrótt. Þar verður hin opna þjóðkirkja sýnileg, með sína löngu hefð og sögu og sterka framtíðarsýn í ljósi Jesú Krists.
Þjóðkirkjan hefur með höndum margskonar félagslega þjónustu, kærleiksþjónustu safnaða og neyðaraðstoð innanlands og þróunar og neyðarhjálp á alþjóðavettvangi um farveg Hjálparstarfs kirkjunnar. Prestar og djáknar í sóknum og á stofnunum veita fólki stuðning, ráðgjöf, sálgæslu auk leiðsagnar í andlegum efnum. Stuðningur við fólk í hjúskaparerfiðleikum er umtalsverður þáttur í starfi presta og með Fjölskylduþjónustu kirkjunnar er veitt dýrmæt þjónusta til stuðnings fjölskyldum. (www.kirkjan.is)
Öllum er frjálst að sækja þjónustu til Laugarneskirkju, óháð búsetu og trúfélagsaðild.
Hafðu endilega samband ef við getum eitthvað liðsinnt þér.