top of page
hjaltijon

Kross

Ég keypti bíl fyrir um hálfu ári síðan, er hrikalega ánægður með hann. Toyota RAV4, rúmlega 20 ára gamall, seigur en sérvitur. Ein af sérviskunum sem bíllinn hefur tekið upp á nýverið er að bensínljósið í mælaborðinu er fast, viðvarandi gult, alveg óháð því hve mikið eða lítið er á tanknum. Það hefur því mikið reynt á giskið hér á bæ undanfarin misseri og almennt gengið vel. Allt þar til seint í gærkvöldi þegar ég fann mig bensínlausan við Sæbrautina í íslenskri sumarnótt. Þar sem ég beið eftir leigubílstjóranum góða sem aðstoðaði mig við að bjarga málunum fór ég í sumarnóttinni að hugsa um það þegar við erum á þeim stað að hafa ekki innsæi í eigin orku, vitum ekki hvar við erum stödd, hver staðan sé, eða hvert við sækjum orku okkar. Hver er uppspretta orku þinnar? Þegar við erum á þeim sára stað að hafa ekki innsæi í sjálf okkur erum við svo gjarnan úr tengslum við reynslu okkar. Stundum erum við á flótta frá því að horfast í augu við hana. Hvernig skil ég sjálfan mig sem manneskju í þessari veröld? Þessari veröld, sem á alla þessa björtu og brakandi liti sumarsins sem segja sögur af möguleikum um frið og nýja gleði, en á líka allan þennan óskiljanlega, ótæmandi sársauka? Þetta er raunar svo skrýtin staða, að vera mannvera, að það er ekki að undra þó við glötum þessu innsæi í orku okkar og uppsprettu hennar. Og þegar svo er, þá er ekki að undra að það sé happaglappa hvort við komumst á ferð, eða ekki. Það hefur stundum verið sagt tengt áfallareynslu lífsins að við veljum ekki áföll okkar en við getum haft áhrif á hvernig við vinnum með og úr reynslu okkar. Krossinn er þarna, erum við tilbúin til að horfast í augu við hann, tilbúin til að gangast við honum? Erum við kannski hrædd við hvað gerist þá? Erum við kannski hrædd við að það gæti endurskilgreint sjálfsmynd okkar? ,,Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér” sagði Kristur. Að afneita sjálfum sér, hvað er það? Gæti verið að það sé fólgið í því að hætta að sækja öryggi í hækjur egosins sem við höfum, eðlilega, ræktað með okkur? Guðspjall dagsins er úr 14.kafla Lúkasar, þetta er lokahluti þess kafla sem við lesum hér í dag. Fyrr í 14.kafla heyrum við dæmisögur Jesú, sem snúa að lífi í auðmýkt.  ,,Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Þessar dæmisögur sýna hvernig við getum horft til ytri áhrifa, stöðu okkar, velgengni, til að staðsetja okkur og validera í veröldinni. Enn á ný skorar Jesú á okkur til að sjá falsið sem fólgið er í þessum flóttaleiðum og vísar okkur aftur til kjarnans. Að við munum hvaðan við komum, hvorki meiri né minni.

Ég hitti nýverið kæran vin, hann talaði um hvernig hann hafði verið hvattur til keppa á framabrautinni, en hann hafði ekki áhuga keppni, hann hafði áhuga á þátttöku - í trausti til Guðs sem allt fram leiðir. Þegar Jesús talar um að vera lærisveinn sinn, að fylgja sér, þá er Jesú að tala um þetta: Að lifa í traustum tengslum við kjarna tilveru okkar, grundvöll veru okkar. Í guðspjalli dagsins segir hann dæmisögu: Hver yðar sest ekki fyrst við ef hann ætlar að reisa turn og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu? Ella má svo fara að hann leggi undirstöðu en fái ekki lokið við og allir, sem það sjá, taki að spotta hann og segja: Þessi maður fór að byggja en gat ekki lokið. Hver er undirstaðan? Guðfræðingurinn Paul Tillich vildi meina að hver manneskja ætti í sér undirstöðu, eða möguleikann á henni; einhverja kjarna tengingu, trúar-og lífsskoðun, sem væri og verkaði á þann hátt sem á ensku kallast “ground of being.” Hvernig ætlum við að eiga heil tengsl við föður og móður, maka og börn, bræður og systur ef við ætlum að lifa fullkomlega í eigin mætti, aftengd, alltaf kveikt á bensínljósinu og óljós hver staðan er? Jesús minnir okkur á að leita til Guðs fyrst, setja allt okkar traust á Guð og að frá þeirri grunnorku muni allt fram spretta. Margt af því fólki sem er mér kærast í þessari veröld virðist ekki þurfa á Guði að halda og ég fylgist með því lifa góðu og fögru lífi, fæ að þakka fyrir að vera hluti af þeirra lífi. Mér finnst það svo gott, mér finnst eðlilegt að trúarþörf manneskjunnar og upplag sé ólíkt. En ég er þannig gerður, ég þarf á Guði að halda.  - - - - - - - - - - - - Drottinn, minn faðir, lífsins ljós,

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert, mín lífsins rós,

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni. Loksins fór ég í gær að sjá 9 Líf, verkið um líf Bubba Morthens í Borgarleikhúsinu. Flest þau sem ég hitti og þekkti á sýningunni voru að fara í annað sinn. Þetta er merkileg sýning, merkilegt hvernig Bubbi er spegill fyrir íslenska þjóðarsál. Ein af upphafssetningum verksins er þessi: Við erum öll Bubbi. Áhugaverð setning til að taka með sér í gegnum sýninguna þar sem við fylgjumst við með tengslum Bubba við krossinn í eigin lífi, við fáum að sjá hann berjast um og reyna og láta allt hvað hann getur eins og krossinn sé ekki, ekki svo þungur, ekki svo ótrúlega sársaukafullur. Við fáum að sjá Bubba glíma við eigin varnarhætti, við egoið, hinar fölsku hækjur sjálfsins. 

Það er farið með okkur í partavinnu; við kynnumst öllum þessum ólíku pörtum Bubba og bjargráðum þeirra, gagnlegum og ógagnlegum.

Svo verður þetta undur, við að gangast við krossinum umbreytist hann í lífi Bubba, rétt eins og krossinn í þínu lífi og mínu. Það er þá sem upprisan á sér stað. Það er þá sem myndin af mér og þér verður heil, því hún hefur í raun alltaf verið heil þarna undir niðri og engin þörf fyrir okkur að streða. Því rétt eins og við erum öll Bubbi, þannig getum við kannski öll gengið veg Krists. - - - - - - - - - - -  

Það var ekki íslensk sumarnótt, það var að morgni til. Núna um daginn, þá vaknaði ég. Tankurinn á RAV4 hefur verið ca.hálfur, en það kom í ljós að minn var tómur. Ég nuddaði stírurnar úr augunum og ég reyndi að skilja þetta og ég reyndi að hugsa hvað ég ætlaði að gera í eigin mætti til að bjarga málunum. En ég komst ekkert áfram. Hvorki í huganum né öðruvísi. Það var þá sem ég gafst upp, það var þá sem ég mundi eftir uppsprettunni. Það var þá sem ég leitaði í bænina. Guð bauð mér að virða fyrir mér krossinn í eigin lífi og koma eins auga á umbreytinguna og upprisuna. Ég var ekki alveg tilbúinn, en það var gott að vera með Guði. Í bæn. Ég var ekki alveg tilbúinn. Kannski komum við saman í kirkjunni til að rækta með okkur þennan fúsleika. Svo vöknum við með sól að morgni.  


,,Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér” segir Kristur. Dýrð sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.



63 views0 comments

Comments


bottom of page