top of page

Skírn

Í heilagri skírn er skírnarþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelísk–lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt á meðan það enn er ómálga. Fullorðinsskírnir tíðkast þó, ef eftir því er óskað.

Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt í nafni föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni.

​

Meginreglan er sú að barn sé skírt í kirkju að viðstöddum söfnuði eða fulltrúum hans, en gömul hefð er fyrir því á Íslandi að skírn geti farið fram í heimahúsi. Gömul hefð er einnig fyrir því að barnið sem skírt er sé fært í hvítan skírnarkjól sem er tákn fyrirgefningar syndanna. Kjóllinn er síður, sem táknar það að skírnarbarnið á að vaxa í trú, von og kærleika.

​

Aðstandendur velja barninu skírnarvotta. Skírnarvottar heita einnig guðforeldrar. Þeir eru aldrei færri en tveir, en geta verið allt að fimm. Að minnsta kosti tveir verða að hafa náð 18 ára aldri, en æskilegt er að í það minnsta eitt guðforeldri sé á þeim aldri að það geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og skírnarvottar játa trúna fyrir hönd barnsins og skuldbinda sig þar með til að ala það upp í kristinni trú.

 

Við skírnarathöfn eru lesnir þeir ritningartextar sem skírnin byggir á:

Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Mt. 28. 18-20)

 

Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“ Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. (Mk. 10. 13-16)

 

Við fullorðinsskírn er seinni  textinn ekki lesinn en þess í stað þessi texti:

Jesús sagði við Nikódemus: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki nema hann fæðist að nýju.“ Nikódemus segir við hann: „Hvernig getur maður fæðst þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“ Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda.” (Jóh 3.3-5)

​

Hægt er að óska eftir skírn í guðsþjónustu, í einkaathöfn í kirkjunni eða með því að fá prest í heimahús eða sal. Þegar skírt er í guðsþjónustu er það gert í upphafi og sú þjónusta er foreldrum að kostnaðarlausu. Í einkaathöfn er greitt fyrir skírnina samkvæmt gjaldskrá Innanríkisráðuneytisins, 7.272 kr. Þegar um er að ræða sérathöfn í kirkjunni er einnig greitt fyrir kirkjuvörslu.

​

Algengt er að nafn barns sé nefnt fyrsta sinni við skírnina. Mikilvægt er að láta prest vita með góðum fyrirvara um nafn barnsins og nöfn guðforeldra. Ef nafn er ekki til á mannanafnaskrá er nauðsynlegt að sækja um leyfi fyrir því til Mannanafnanefndar sem reynir að afgreiða málin snarlega. Hér er hægt að leita að leyfilegum nöfnum og kanna hvort nafn sé á skrá yfir leyfð nöfn.

​

Athugið að prestur getur ekki séð um að koma skráningu nafns til Þjóðskrár nema báðir foreldrar barnsins séu skráðir í Þjóðkirkjuna.

bottom of page