Hjónavíxla
Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar heita hvor öðrum ævitryggðum, að eiga, njóta og þiggja saman önn sem yndi lífsins, gleði og sorgir.
Hjónavígslan er tjáning gleði og fögnuðar, samstöðu, ábyrgðar og vonar á þessum vegamótum í lífi hjónaefnanna. Söfnuðurinn umlykur hjónin fyrirbæn sinni ásamt kirkjunni allri og vill með Jesú Krist sem fyrirmynd sýna því samfélag hinnar gagnkvæmu þjónustu og þörf allra fyrir samfélag við Guð og náungann utan hrings fjölskyldunnar.
Návist Guðs í hjónabandinu veitir hjónunum hjálp til að lifa saman í kærleika og umhyggju og vera vottar þess í umhverfi sínu.
Hjónin játast hvort öðru opinberlega fyrir Guði og söfnuðinum, heita því að vera hvort öðru trú, elska og virða hvort annað. Guð sameinar þau, þau tvö verða eitt. Presturinn minnir þau á skuldbindingar og ábyrgð og fyrirheit hjónabandsins, lýsir þau hjón og leggur blessun Guðs yfir hjúskap þeirra. Viðstaddir biðja fyrir þeim og heimili þeirra.
Hjúskaparsáttmálinn sjálfur er í eðli sínu veraldleg stofnun. Tveir einstaklingar sem heimild hafa til hjúskapar lýsa því yfir í áheyrn votta að þeir vilji vera hjón og síðan handsala þeir þennan sáttmála. Efnislega er enginn munur á þessu hvort sem um er að ræða borgaralegt brúðkaup eða kirkjulegt. Samkvæmt íslenskum lögum hafa prestar og forstöðumenn safnaða heimild til að annast þennan borgaralega gjörning.
Það sem greinir kirkjulega hjónavígslu frá borgaralegri er fyrst og fremst ákveðin afstaða brúðhjónanna til kristinnar trúar, auk fyrirbæna og blessunar. Þetta er kristin hjúskaparstofnun.
Meginreglan er að kirkjubrúðkaup fari fram í kirkju. Í það minnsta skulu vera viðstaddir tveir vottar eða svaramenn. Heimilt er að giftingarathöfn fari fram á heimili, undir berum himni eða annars staðar.
Hægt er að óska eftir brúðkaupi í Laugarneskirkju með því að hringja í kirkjuna eða senda fyrirspurn á kristjan@laugarneskirkja.is. Greiða þarf fyrir kirkjuvörslu.
Gjald fyrir hjónavígslu er samkvæmt gjaldskrá innanríkisráðuneytisins 13.505 kr. Þegar hjónaefni óska eftir hjónavígslu þarf að leggja fram (eða sýna) eftirtalin gögn:
-
Fæðingarvottorð frá Þjóðskrá Íslands.
-
Persónuskilríki, t.d. vegabréf eða ökuskírteini.
-
Vottorð frá Þjóðskrá Íslands um hjúskaparstöðu eða sambærilegt vottorð frá erlendu yfirvaldi.