top of page
Writer's pictureGunnar Ragnarsson

Tilkynning frá Laugarneskirkju

Um áraraðir hafa heimsóknir skólabarna í Laugarneskirkju verið fastur liður í aðventuhaldi og jólaundirbúningi bæði kirkjunnar og skólans.

Á seinni árum hefur tekið að gæta andstöðu við þessar heimsóknir meðal sumra foreldra og hafa börn verið tekin út úr hópnum á meðan skólasystkin þeirra hafa komið í heimsókn til okkar.

Okkur í Laugarneskirkju hefur sárnað eilítið þessi tortryggni foreldra í garð þessara heimsókna, enda einungis um að ræða vettvangsferð í samfélagsfræðslu.

Kirkjan er hluti af samfélagi okkar – hvað sem hverjum kann að finnast um það. Ferðir þessar hafa verið að frumkvæði skólans og að öllu leyti á hans forsendum.

Þeir kennarar og skólastjórnendur sem fylgt hafa börnunum geta vottað um að þar á sér ekkert stað sem kalla má trúboð eða trúariðkun, aðeins fræðsla. Dagskrá heimsóknanna hefur verið búin til í skólanum, ekki kirkjunni.


Þrátt fyrir þetta hefur andstaðan við þessar heimsóknir farið vaxandi ár frá ári og valdið ágreiningi á milli þeirra sem vilja halda í þessa hefð og hinna sem vilja að hún leggist af.

Við í Laugarneskirkju viljum ekki vera í þeirri stöðu að valda ágreiningi í nærsamfélagi okkar. Við viljum ekki heldur vera þess valdandi að börn séu útilokuð frá þátttöku í hluta skólastarfsins.


Við viljum að um okkar góða starf ríki sátt og friður.

Því höfum við tekið þá ákvörðun að afþakka heimsóknir skólabarna á vegum skólans á aðventunni sem er í vændum. Okkur er óljúft að taka þessa ákvörðun, en til að kirkjan geti sinnt starfi sínu í næði viljum við forðast að um hluta þess standi styr sem þessi – jafnvel þótt hann sé að okkar mati ástæðulaus og óþarfur.


Þess í stað verður boðið upp á dagskrá fyrir skólabörn í Laugarneskirkju alla fyrstu viku aðventunnar á milli kl. 3 og 5. Börn á grunnskólaaldri eru velkomin í kirkjuna á þeim tíma og við munum gera okkur glaðan dag, lesa jólaguðspjallið, syngja jólalög og eiga góða stund saman við bæn og tilbeiðslu . Hvetjum við foreldra til að nýta sér það og kíkja í heimsókn til okkar. Í Guðs friði,


f.h. Laugarneskirkju Sr. Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugardalsprestakalli


„Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.“ (Lúk 18.16)





46 views0 comments

Recent Posts

See All

Kross

Коментари


bottom of page