top of page
Writer's pictureGunnar Ragnarsson

Sögurnar sem hafa breytt öllu

Sr. Hjalti Jón Sverrisson

Rithöfundurinn George Dawes Green var fluttur til New York frá Georgia fylki Bandaríkjanna og hann fann fyrir söknuði. Hann saknaði þess að eiga samfélagið sem hann hafði átt á árum áður, þegar hann hafði varið mörgum kvöldstundum með vinum sínum; sitja saman og segja sögur. Söknuðurinn varð að samfélagsverkefni, the Moth, hvar fólk kemur saman og segir sögur. The Moth, mölflugan. Og hvað er mölfluga í raun? Fiðrildi. Nafnið gefur til kynna grundvallandi þema sagnanna sem eru sagðar: Fólkið sagði sögur af hamskiptum lífs síns, sögurnar sem höfðu haft í för með sér merkingu, umbreytingu. Hvað gerist í taugakerfinu þínu þegar þú horfir á áramótabrennuna? Af hverju er svona notalegt að sjá varðeldinn? Eru kynslóðirnar innra með okkur að andvarpa, því varðeldurinn hlýtur að tákna öryggi? Hvaðan kemur þetta andvarp sálarinnar, léttirinn og tengingin sem við finnum þegar við syngjum saman? Af hverju ætli sé ennþá svo gott, en á stundum svo gleymt, að setjast saman og segja sögur? Þegar ég las um the Moth fann ég og sá að kirkjan er og getur verið vettvangur fyrir sögurnar okkar. Og kannski mögulega gætum við einhvern daginn búið til óhefðbundið guðsþjónustuform, kannski kvöldmessu, þar sem sem fólk kæmi saman til að segja sögur, já, og kannski gætum við kallað það Varðeldinn? Ein saga sem mig langar að segja ykkur: Þessi kaffibolli er kaffibolli Eyrúnar ömmu minnar, en Eyrún amma lést í maí síðastliðnum. Ég elska ömmu mína svo ótrúlega heitt, mig hefði aldrei grunað hversu mikið ég ætti eftir að sakna hennar. Á bollanum stendur Þjóð til þings - Þjóðfundur 2010 um stjórnarskrá Íslands… og ég tók þátt :) Amma var alltaf stolt af því að hafa tekið þátt; að hafa rödd, hafa áhrif. Fáar sögur, ef einhverjar, í mannkynsögunni hafa haft sömu áhrif og dæmisögur Jesú frá Nasaret. Þvílíkur sögumaður! Í 2000 ár hafa dæmisögurnar breytt lífum. Áðan heyrðum við eina þeirra. Miskunnsami samverjinn. Mörg okkar erum búin að heyra þessa sögu svo óteljandi oft - og enn talar hún til okkar! Hún er sístæð, því viska hennar hvíslast um í taugakerfum okkar og hún er ennþá að spyrja okkur í dag: Hver er náungi minn? Sigurbjörg Vignisdóttir er frá Grindavík og hún var svo örlát í miðju áfalls þegar hún nýtti hluta viðtals í Kastljósi til að orða þær sterku verndandi tilfinningar sem hafa fylgt því að finna stuðning og hjálp landsmanna nú þegar Grindvíkingar mæta ótrúlegum raunum. Sigurbjörg sagði meðal annars: ,,Ég brotnaði svolítið niður þegar ég setti inn auglýsingu og síminn minn hann stoppaði ekki. Ég upplifði þetta líka svolítið á föstudaginn þegar ég sá að fólkið frá Eyjum byrjaði strax að bjóða húsin sín. Þegar maður er í þessari stöðu, maður er svo vanmáttugur… þetta braut svolítið í mér hjartað á fallegan máta, hvað allir eru tilbúnir til að gera allt fyrir okkur. …Það er allt þetta góða, sem ég græt yfir.” Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig. (Lúk.10:27) Þakklæti Grindvíkinga fyrir stuðninginn á svo ógnar krefjandi tímum hefur verið inspirerandi. Viska þeirra hefur meðal annars birst í áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir Grindvíkinga að eiga tækifæri til að koma saman, geta skipst á fréttum, sagt sögur, fallast í faðma, einfaldlega að vera saman. Það hefur verið dýrmætt að heyra af því að Grindvíkingar hafi mætt miskunnsama samverjanum í landsmönnum, en á sama tíma höfum við heyrt af áhyggjum landsmanna, hvort sem eru frá Grindavík eða annars staðar. Það varðar það hver það eru sem munu ganga framhjá, hver það eru sem muna veita stuðning. Það hefur glitt í áhyggjur af því að auðug fyrirtæki munu vera eins og presturinn og levítinn í dæmisögunni af miskunnsama samverjanum, ganga framhjá, veita ekki stuðning. Það hefur glitt í áhyggjur af því að bankarnir muni ekki veita viðeigandi stuðning í þessum aðstæðum. Kvíðinn og vantraustið er skiljanlegt, ég hef ekki enn orðið var við að neitt hafi komið beinlínis fram sem sé til þess fallið að eyða óvissu um þetta, en ég vona innilega og vitiði, ég ætla að reyna að treysta því, að þetta muni reynast óþarfar áhyggjur. Í vikunni varð ég var við að mörg voru djúpt hugsi um þetta og tilfinningarnar sterkar. Ég hugsaði með mér að kannski væri það meðal annars því við eigum þetta sterka sagnaminni í trúararfleið okkar og þjóðarsál; sagan af miskunnsama samverjanum, þar sem við getum ekki annað en mátað okkur; Hver erum við í sögunni?

Kannski var það líka þess vegna sem var svo sárt fyrir íslenska þjóð að Ísland skyldi sitja hjá í atkvæðagreiðslu Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé Ísraels og Hamas. Presturinn sveigði framhjá, levítinn sveigði framhjá, Ísland sat hjá.

Þegar ég hugsaði um að setjast við Varðeldinn og segja sögu í kvöld hafði ég í fyrstu hugsað að sögurnar ættu nú ekki að snerta á pólítík en svo mætti ég þeirri gömlu staðreynd að lífið er pólítískt og þegar maður sest niður og hugsar um sögu, sína eða annarra, já eða orð Jeremía spámanns sem segir: Rödd heyrist í Rama,

harmakvein, beiskur grátur.

Rakel grætur börnin sín,

hún vill ekki huggast láta,

því að þau eru ekki framar lífs. (Jer.31:15) … Þá finnur maður að sagan fer með mann þangað sem hún þarf að fara.

Það er endalaust hægt að spá í dæmisögum Jesú frá Nasaret og vitiði, ég held að ég sé enn langt frá því að skilja margar þeirra. En þó maður skilji ekki, þá er hægt að skynja. Kannski eru það sögurnar sem breyta manni.

Ég trúi því líka ennþá að hægt sé að setjast saman við varðeldinn og eitthvað kröftugt geti átt sér stað við að heyra sögurnar. Heilagur Andi. Ég sagði ykkur eina sögu tengda ömmu minni áðan, nú langar mig að segja ykkur aðra: Þegar amma mín lést og ég fékk kaffibollann góða þá kom í ljós að amma átti líka enn fullt af tónlist til sem ég hafði samið á menntaskólaárunum, geisladiskar sem ég hafði skrifað (fermingarbörnin skilja núna líklega ekki neitt hvað ég er að tala um, ég útskýri þetta í fermingarfræðslunni á þriðjudaginn).

Ég fékk þessa tónlist í hendurnar sem ég hafði gleymt að væri til, ég var löngu búinn að týna henni sjálfur. Amma týndi henni aldrei. Passaði upp á rödd 16 ára Hjalta. Fyrir mér var þetta táknrænt; til marks um stuðning og vernd hennar. Það er ekkert jafn heilagt í þessu lífi og að vernda börn. Dýrð sé Guðs Heilaga Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.


108 views0 comments

Recent Posts

See All

Kross

Comments


bottom of page