top of page

Prédikun 03.09.2023

Sr. Hjalti Jón Sverrisson.

Ég veit ekki hvort þið munið eftir sjónvarpsþáttaseríunni LOST, sem var sýnd á árunum 2004-2010? Flest sem ég þekki segjast hafa hætt að horfa eftir fyrstu seríuna, segja þá gjarnan að þetta hafi verið orðið allt of steikt og furðulegt fyrir sig. En mitt í furðulegheitunum er að finna fjöldann allan af guðfræðistefjum. Eitt af viðfangsefnunum er hin eilífa barátta; trú og efi, vega salt. Persóna John Locke er um tíma í þáttaröðinni sterkt myndin af þeim sem

tekur trúarstökk, verður síðan staðfastur en leitandi, í trú sinni og vantrú sinni. Þetta hlutskipti manneskjunnar, að vera ekki eitt, heldur margt. Á tíma trúarstökks Locke spyr hann aðra lykilpersónu, sem heitir því skemmtilega nafni Jack Shephard, hvers vegna Jack eigi svo erfitt með að trúa. Hirðirinn Jack spyr hann á móti hvers vegna hann eigi svo auðvelt með að trúa, “How come you find it so easy?” Svar Locke? “It’s never been easy.” Það hefur aldrei verið auðvelt, eða einfalt. Því fylgja áskoranir að vera kristin manneskja, okkur er ekki lofað því að það verði alltaf auðvelt. Guðspjallstexti dagsins ögrar: ,,Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.” Í ritskýringarriti Robert Tannehill, sem tekur fyrir sambærilegan texta í Lúkasarguðspjalli, greinir höfundur hvernig Jesús notar kröftugt og skapandi myndmál sem virðist ekki vera að leitast við að skapa beinar reglugerðir um ytri hegðun fólks, heldur hafi þann tilgang að vekja siðferðilegt innsæi fólks gagnvart hlekkjum vanans í hegðunar- og hugsanamynstri okkar. Með því að vekja okkur á þann hátt sé Jesús að skapa með okkur möguleikann á að eitthvað nýtt geti orðið til. Með því að skora á gamlar hugmyndir okkar og ályktanir og bjóða fram nýja möguleika treystir Kristur í fjallræðu sinni okkur til að taka þátt; að ný leið fæðist fram. Ekki mörkuð af ótta og hatri, heldur kærleika. Fyrir nokkrum árum sagði góður vinur minn mér frá tveimur hugtökum sem hann beitti í sínu lífi. Hann skoðaði þá gjarnan með sjálfum sér hvort hann væri að lifa og starfa út frá samanburðarorku, eða sköpunarorku. Þetta er ákveðið ástand, eða stemmning.

Samanburðarorkan, eins og orðið gefur til kynna, felur í sér að lifa í samanburði, þar er vegur farsældarinnar afar þröngur, rétt eða rangt, það er auðvelt að klúðra í samanburðarorkunni. Í samanburðarorkunni er gjarnan lítið pláss, það þýðir að það er líka ekki pláss fyrir öll, samanburðarorkan er drifin áfram af samkeppni, meira en það; ótta. Í samanburðarorkunni er ekkert rými fyrir nokkuð nýtt að verða til, það er svo lítið frelsi fyrir það. Það er annað með sköpunarorkuna, í sköpunarorkunni er ekki stemmningin annað hvort-eða, hún er opin, leitandi. Sköpunarorkan óttast ekki, heldur ekki að heimurinn sé að hrynja en ef heimurinn er að hrynja þá er hún svolítið forvitin um það og hvaða nýju möguleikar birtist í eilífri hringrásinni. Sköpunarorkan sækir kraft sinn í kærleika, annað en samanburðarorkan sem nærist á kvíða óttans. Samanburðarorka nærir polariseringu, flokkadrætti, að ýfa upp óttann og gera lengra bilið milli okkar. Sjáum við þetta ekki birtast í lífi okkar og samfélagi? Þessa dagana birtast endurteknar fréttir; Regnbogatröppur málaðar svörtu, fórnarlömb mansals gráta á götum úti og hópum er stillt upp, hvor móti öðrum. Það er ekki erfitt að leiða hugann að málefnum líðandi stundar þegar hlustað er á lexíu dagsins úr spádómsbók Jesaja: ,,Nei, sú fasta sem mér líkar

er að leysa fjötra rangsleitninnar,

láta rakna bönd oksins,

gefa frjálsa hina hrjáðu

og sundurbrjóta sérhvert ok,

það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,

hýsir bágstadda, hælislausa menn

og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann

og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð." Þorsteinn Einarsson, skáld og lagahöfundur orti: ,,Allir eiga skilið skjól

skúrum frá og vindum.

Hver sem okkur heiminn fól

hlífir öllum myndum.

Það er aðeins eitt kyn

og það er mannkynið."


Texti spámannsins Jesaja tekst á við umgengni við trúarmenningu, hefðir, við lögmálið, skapar fram nýjar myndir. Myndin af föstunni verður mynd náðar, miskunnar, örlætis. Guðspjallstexti síðasta sunnudags kallast á vissu leiti við þennan texta, þeas. Að fást við hvað sé sannur skilningur á lögmáli Guðs. Mig langar til þess að hvetja til þess að hlusta á útvarpsmessu síðastliðin sunnudags sem var send frá Dómkirkjunni, og má finna á sarpinum, ekki síst prédikun sr. Sveins Valgeirssonar sem snerti meðal annars á málefnum hælisleitenda- og flóttafólks og hafði mikil áhrif á mig. Það voru þrjú orð sérstaklega sem snertu mig djúpt, hreyfðu við mér. Það var þegar Sveinn á einum tímapunkti andvarpar: ,,Ég veit ekki.”

Hann hafði talað af innsæi og mikilli þekkingu um guðfræði, um málefni líðandi stundar, þrætt saman stefin… en svo birtist viskan ekki síður í andvarpinu sem segir ,,Ég veit ekki.” Þeas. Hann þóttist ekki vita nákvæmlega frá A-Ö hvernig best væri að hátta málum. En bent var til eilífra gilda trúarhjartans í trausti þess að lausnir geti fæðst fram. Til þess þarf sköpunarorku.

Við þekkjum ekki allar lausnirnar í lífum okkar í dag, en við þekkjum í hvaða anda þær ættu að vera. Það veit ég að við getum heyrt í þeim sama anda í hjörtum okkar. Það er andinn sem við heyrum í pistli dagsins, óðnum til kærleikans. Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Hver erum við án kærleika?

Í guðspjalli dagsins ögrar Kristur okkur til þess að elska óvini okkar. Sú ást sem hinn forni heimur talaði um var ekki einhver stundleg rómantísk tilfinning, heldur framkvæmd, staðfesta. Ásetningur, ákvörðun, árvekni. Kærleikur sem felur í sér að vera nægilega vakandi í sínu andlega lífi til að verða óttanum ekki að bráð heldur að grundvallandi kærleikurinn sem við byggjum líf okkar á, sköpunarorkan, leiði, umvefji, uppbyggi. Kannski er í textanum undirliggjandi loforð. Kristur er að lofa okkur: Þið eruð örugg. Það er ekkert að óttast. Mitt á meðal óvina, verður náð Guðs og kærleikur ekki frá ykkur tekin. Verið hughraust. Og ef við erum örugg, í gegnum allt, þrátt fyrir allt, ef við erum Guði falin, er þá einhver ástæða til að hata? Er ástæða til að eiga óvini? Er ástæða til að lifa í samanburði? Eða getum við verið í sköpunarorkunni? Ætlum við að lifa út frá viðbragði við ótta? Eða ætlum við að lifa í svari kærleikans?

,,Þú verður nefndur: múrskarðafyllir,

sá sem reisir byggð úr rústum." - segir í lexíu dagsins.

,,Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður."

Það hefur aldrei verið auðvelt. Það gæti verið þess virði. Það verður ekki auðvelt.

,,Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður."


Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.62 views0 comments

Recent Posts

See All

Kross

Comments


bottom of page