top of page
Writer's pictureGunnar Ragnarsson

Ekki hátt upp hafin, heldur í augnhæð. Samfélag heilagra, fullkomlega ófullkomin.

Sr. Hjalti Jón Sverrisson


Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá. Fjarlægðin á sér margar myndir. Söknuðurinn er ein þeirra. Ég hef setið með syrgjendum, heyrt þá svo oft setningar á borð við: ,,Það er svo margt, sem ég myndi vilja segja frá, og spyrja. Ég sakna þess að geta tekið upp símann og fengið góð ráð.” Þá er verið að lýsa því hvernig við mætum sorginni og finnum að einmitt sá eða sú sem við myndum helst vilja leita til, er sú manneskja sem ekki er hægt að leita til, ekki eins og áður. Ein af spurningum hjartans sprettur fram: Hvernig á ég að vera í veröld þar sem þig vantar? Mörg þekkjum við hvernig í amstri daganna við finnum þörfina banka upp á hjá sál okkar, þörf sem getur hljómað eins og þessi setning; Æ, ég vildi ég gæti sagt þér fréttir núna af mér og mínum. Fjarlægðin hjálpar okkur stundum að átta okkur á öllu því sem við höfum deilt með manneskju sem okkur er kær. Fjarlægðin á sér margar myndir, og stundum verður hún til í lifanda lífi. Það getur myndast svo mikil fjarlægð, á mili mín og þín. Guðspjall dagsins fjallar um tengsl okkar, hvernig vinnum við með ágreining okkar á milli; þegar skapast sundrung og fjarlægð milli okkar. Jesús hvetur okkur til að fresta því ekki til eilífðar að gera upp mál okkar, heldur stíga inn í úrvinnsluna því það er til svo mikils að vinna. Þó að fjarlægðin geti hjálpað okkur að fá yfirsýn, þá er hætt við að festast í henni, verða þá jafnt fælin við átök og við sáttina. Þær eru ekki sjálfsagðar gjafirnar, en þær eru ríkar, þegar einhugur skapast. Það finnum við hve ógnandi, sárt og krefjandi það er þegar svo er ekki. Við þekkjum mörg og eigum eftilvill sögurnar af því þegar sorgin hefur fært fólk saman, þegar tengslin dýpka enn frekar, þegar sorgin gefur ekki aðeins skýrari sýn á tengsl okkar við hinn látna, heldur eins á þau sem eftir lifa. Við þekkjum eins eftilvill sögurnar af því þegar sorgin hefur ekki orðið til að heila tengslabönd heldur til þess að auka á slit þeirra. Úr verður sorg, út af fyrir sig. Veraldlegir ágreiningar, misheppnuð samskipti, erfðamál og annað, taka yfir. Þetta getur hent okkur öll, sundrung mannshjartans fer ekki í manngreinarálit þar, en mikið óskaplega er þetta sár staður sem óskandi er að dvelja sem minnst á. Þegar slíkt slit leggst á tengsl okkar þá getur reynst svo mikil áskorun að sjá hið heilaga í bræðrum sínum og systrum. Þvílík sorg. Í dag komum við saman hér í Laugarneskirkju og það er allra heilagra messa. Í íslenskri kirkjumenningu er allra sálna messa og allra heilagra messa farnar að mætast býsna mikið á miðri leið á köflum. Á þessum tíma kirkjuársins er hefð fyrir því að við leiðum huga og hjörtu að látnum ástvinum okkar, en við ættum eins að leiða huga okkar og hjörtu eins að postullegu trúarjátningu okkar, þeirri sem við fórum saman með áðan. ,,Ég trúi á heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra.” Samfélag heilagra. Hver eru það? Við leiðum hugann líklega sjaldan að því. Þrátt fyrir forna merkingu sína og mikilvægi í trúarjátningunni, hefur svo gjarnan ríkt misskilningur í kirkjunni um hver þetta séu. Vist-feminiski guðfræðingurinn Elizabeth Johnson greinir þetta vel í bók sinni, Friends of God and Prophets: A feminist Theological Reading of the Communion of Saints. Það er nefnilega ekki svo að um sé að ræða útvalda dýrlinga, heldur er verið að tala um allt samfélag þeirra sem koma saman í kirkjunni. Það er ekki verið að horfa einvörðungu til þeirra sem látin eru, heldur eins til þeirra sem eftir lifa. Johnson segir að það sé svo tákn samfélags heilagra sé ekki aðeins tákn mannfólksins, það er tákn hins náttúrulega heims sem á hlutdeild í hinu heilaga. Það er verið að minna okkur á orð guðspjallsins, Kristur mitt okkar á meðal, Guð er með okkur, hér og nú. Þannig játum við, samfélag heilagra, að Guðs Heilagi Andi sé að störfum, nærri okkur, í sköpuninni. Þetta er mikilvægt að minna sig á, því á stundum getur sálinni þótt Guð sé fjarlægur, erfitt að koma auga á, erfitt að heyra, erfitt að skynja.

En við játum að við trúum á samfélag heilagra, sem nær út fyrir líf og dauða, tíma og rúm. Hversu dýrmætt er að eiga slíkt samfélag, eins og í dag sem þar sem við komum saman, kveikjum ljós. Að samfélag heilagra sé samfélag okkar allra í kirkju Krists á jörðu tónar við grundvallandi hugmynd Marteins Lúthers, um að veruleiki manneskjunnar er sá að við erum ,,simul iustus et peccator”, syndug og réttlætt, samhliða, samtímis. Þetta er raunsæ mannsmynd. Heilagleiki okkar er ekki fólginn í fullkomnun okkar, heldur að vera fullkomlega ófullkomin, en Guði falin - og Kristur er mitt okkar á meðal. Fyrir nokkrum vikum heyrðum við guðspjallstexta Markúsar lesinn, sagt var frá manni sem kemur hlaupandi að Jesú, kallar hann ,,góði meistari” - og Jesús svarar um leið: ,,Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.” Maðurinn sem kemur á hlaupum til Jesú hafði ætlað sér að setja hann á stall, en Jesús vill vera í augnhæð. Ég hef oft hugsað um þessa setningu, kannski var Jesús að vara þarna við skurðgoðadýrkuninni, hættu okkur á því að setja mannfólk á stall, þegar við gerum fólk að dýrlingum.

Enda getur fallið orðið svo hátt, þá finnum við þessa djúpu sorg þegar mynd okkar af fólki breytist. Sannarlega er það svo að ljós og skuggi vega salt. Í hverri manneskju.

Eitt af ábyrgðarhlutverkum preststarfsins þegar setið er með elskandi fólki frammi fyrir kveðjustund er að hvetja fólk til þess, í samtölum fyrir minningarorð kveðjuathafnar, að sjá manneskjuna alla og geta rætt jafnt kosti og galla. Þá reynir á að geta tekið skref til baka til að sjá, eignast heilbrigða og virðandi fjarlægð. Því þegar við megnum að horfast í augu við manneskjuna alla, þá styður það svo við batann í lífinu. Get ég leitast við að horfast í augu við myrkrið í samferðafólki mínu, á sama tíma og ég viðurkenni ljós þeirra, að séu þau heilög, fullkomlega ófullkomin eins og þau eru? Get ég leitast við rækta slíkt raunsæi í mannskilning mínum, en verða ekki kaldhæðin, hátt upp hafin og fjarlæg manneskja, heldur vongóð og tilbúin til að leitast við að lifa í augnhæð, í samfélagi heilagra? Get ég leitast við að gangast við því hvernig ljós og skuggi vegar salt innra með mér? Líklega megnum við þetta seint eða aldrei í eigin mætti, ekki ein… en kannski megnum við þetta með Guði, sem er mitt okkar á meðal. Guðspjall dagsins minnir á að við þurfum að eiga og eignast leiðir til að vinna úr sársaukanum í tengslum okkar, horfast í augu við hann, í sannleika og djörfung. Þegar við höfum hugrekki til þess, höldum sjálfum okkur- og hvort öðru ábyrgu á viðeigandi hátt, skorum á okkur til að sjá skuggann í okkur sem ljósið í okkur lýsir upp, þá finnum við að sannarlega er Kristur mitt okkar á meðal. Jafnt í sorg, sem og fögnuði. Ekki hátt upp hafin, heldur í augnhæð. Í samfélagi heilagra, fullkomlega ófullkomin.


80 views0 comments

Recent Posts

See All

Kross

Comments


bottom of page