top of page

Hugvekja á jólum 2023

To our European friends. I never ever want to hear you lecture us on human rights or international law again. And I mean this.“ Var meðal þess sem palestínski presturinn Munther Isaac sagði í prédikun sinni á aðfangadagskvöldi. Ég horfði og hlustaði á hann segja þessi orð, stuttu seinna sagði hann í sömu ræðu: "We are outraged by the complicity of the church. Let it be clear, silence is complicity. And empty calls for peace without a ceasefire and an end to occupation and the shallow words for empathy without direct action are all complicity," Fyrr í dag, sá ég ungan dreng, ekki eldri en 11 ára á að giska. Drengurinn var fatalaus, niðurlægður, umkringdur vel vopnuðum hermönnum. Enn á lífi, allavega á þessari mynd. Aðeins barn. Öll börnin. Erum við ekki örugglega öll Guðs börn? Eða er það innantómur frasi? Hvað eigum við að gera? Fylgir þeirri vitneskju, þeirri trú, einhver köllun? Talandi um köllun. Mig langar að heimsækja með ykkur 10.kafla Lúkasarguðspjalls, byrjum á að skoða upphaf og endi. Annars vegar er þar köllunarfrásögn, Jesús kallar vini sína til starfa: ,,Eftir þetta kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað sem hann ætlaði sjálfur að koma til. Og hann sagði við þá: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.”" (Lúk.10:1-2) Það er fátt þægilegt við starfið sem þessi 72 eru kölluð til að sinna, Jesús heldur áfram í textanum að undirbúa hópinn, búa undir höfnun, skilningsleysi. ,,Uppskeran er mikil en verkamenn fáir.” Þetta er í upphafi kaflans. Í lok kaflans lesum við af Mörtu og Maríu, systrunum, Jesús bendir Mörtu á að María hafi valið góða hlutskiptið. Því María nær að staldra við, hvílast, hætta að starfa, þiggja tengsl og endurnæringu. Þessar frásagnir ramma inn 10.kafla Lúkasarguðspjalls. Þær sýna hvernig við erum kölluð til starfa og hvernig við erum kölluð til hvíldar. Það er ekki annað hvort eða, það er bæði, stundum, þegar vel tekst til, getum við náð að flakka býsna vel þarna á milli. Eitt af því sem fylgir því að starfa með fólki í ítrustu aðstæðum mannlegrar tilveru, í sárustu aðstæðum þess, er að maður hættir ekki að verða hissa. Hissa á viskunni sem býr í kjarna manneskjunnar og getur brotist út, hvernig hún oft á tíðum, eins og í tengslum við einhverja æðri eðlisávísun, æðri mátt, siglir einhverja ólýsanlega öldu tráma og sorgar. Það er ekkert elegant við það að vera manneskja, enda er miklu eftirsóknarverðara að vera ekta. Viskan sem brýst oft út hjá fólki er að kunna að rekja ættartengsl eða rifja upp sumarfrí eða hlæja smá að sama brandaranum og var fyndinn fyrir tveimur árum á milli, já eða jafnvel nánast alveg samhliða því að gráta, öskra, afneita, flýja, frjósa, umfaðma, slást, finna til. Viskan sem brýst út í því að finna allri áfallaorkunni farveg, nýta hana til starfa, til að rækta tengsl, til að vernda börnin, til að stjórna því sem enn er hægt að stjórna. Viskan sem birtist í að varðveita sig, leita leiða til að hvílast. Einhvern veginn, þó stundum höfum við enga hugmynd hvernig. Eitt af því sem Jesús var gagnrýndur svo mikið fyrir var að njóta hvíldar og endurnærandi stunda, líkamlega, andlega, félagslega, með vinum sínum. Svo sótti hann hvíldina eins í einveru, dró sig til baka, í bæn, íhugun, ræktaði sitt spirituality ekki síst með því að gefa tengingunni við Guð tíma í ró og næði. Við erum kölluð til starfa og við erum kölluð til hvíldar. Þetta tilheyrir allt sama samhengi. Nýverið, þegar verið var að ræða PISA kannanirnar frægu varð ég var við áherslu á að okkur sé farið að skorta (já, ekki bara krakkana, okkur öll) getu til að greina samhengi. Það hitti mig vel fyrir því ég var nýbúinn að sitja að reyna að skrifa ræðu og hafa áhyggjur af því í meðvirkni minni að einhver kynni að mistúlka, út af því að ég var ekki að stappa ræðuna niður með smjöri svo myndi renna örugglega mjúklega niður fyrir öll. Reyna að segja eitthvað fyrir öll og enda á að segja ekki neitt. Þetta birtist meðal annars í því að ég hafði áhyggjur af að ég þyrfti að lengja mál mitt mikið til að láta í ljós og vera algjörlega skýr að fordæming á ofbeldisverkum eins væri ekki réttlæting á ofbeldisverkum annarra. Við tölum stundum um að lesa milli línanna, eða skynja og skilja hið ósagða. Ég er stundum að velta fyrir mér hvort við séum að einhverju leiti farin að tapa getunni til þessa, ég finn fyrir þeirri tilhneigingu hjá sjálfum mér. Ég var að tala um 10.kafla Lúkasarguðspjalls, upphaf og endi áðan, núna langar mig að heimsækja söguna í miðjunni. Frásögnin hefst svona: Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“ En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ (Lúk.10:25-29) Í framhaldinu segir Jesús dæmisögu sem ég held að við velflest þekkjum ennþá, að einhverju leiti allavega, dæmisagan um miskunnsama samverjann. Þar erum við kölluð til starfa og við erum ekki síður kölluð til endurnýjunar hugarfarsins því þetta er saga sem fæst meðal annars á beinskeittan hátt við undir- og yfirliggjandi rasisma. Önnur útgáfa af innganginum gæti verið, mögulega, eitthvað á þessa leið. Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“ En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Já, en þetta er nú allt saman mjög flókið og mörg eru að falla í þá gryfju að vera bara grunnhyggin og einföld í þessum málum öllum saman.” Gult fyrir sól, grænt fyrir líf, Grátt fyrir þá sem reka menn út í stríð. Hvítt fyrir börn, sem biðja um frið Biðja þess eina fá að lifa’eins og við. Er ekki jörðin fyrir alla? (úr Myndin hennar Lísu, e. Olgu Guðrúnu Árnadóttur) Ég vona og bið að við eigum þá visku að sækja okkur hvíld, svo áfram sé hægt að fylgja eftir þeirri köllun að starfa að friði, fyrir öll. Mig grunar að enn höfum við öll hlutverki að gegna í heimsþorpinu, hvert og eitt á okkar hátt, eins og við erum kölluð til. Guð blessi minningu allra þeirra barna sem myrt hafa verið í stríðsátökum.

14 views0 comments

Σχόλια


bottom of page