top of page

Að vaka með Kristi

Hefur þú eignast reynslu sem hefur svo sterk og vekjandi áhrif á þig frammi fyrir lífsins gangi að þú hugsir með þér: Þessu skal ég ekki gleyma? 

Þá hefurðu kannski fundið hvernig ný meðvitund, sem sprettur fram í kjölfar reynslunnar, leitast við að móta afstöðu, hafa áhrif á hugarfarið, áhrif á hvernig við verjum tíma okkar - á meðan við enn höfum tíma.

Hefurðu fundið hve auðvelt það getur verið; að það fenni yfir tilganginn sem áður var svo skýr? Þú mætir þér í streitu yfir sama veraldarvafstri og þú hafðir heitið þér fyrr að sleppa tökunum af?

Hvað skiptir máli?


Ég á þessa reynslu, eftir áfall í fjölskyldunni fyrir rúmu ári síðan, var ég í fyrstu svo vakandi fyrir því sem mestu skiptir, einsetti mér að muna hve hégómlegt og léttvægt margt af því er sem ég hef haft tilhneigingu til að leyfa að taka einna mestu orkuna frá mér.

Ég fann mig eignast nýja mælikvarða á hvað það er sem skiptir máli og hvað það er sem má einfaldlega sleppa tökunum af.

En svo hef ég sofnað oft á verðinum - og þarf þá að vakna á ný.


Í upphafi árs hitti ég vitran mann sem hafði fylgt ástvini sínum á dánarbeði.

Maðurinn talaði af þakklæti fyrir tímann, þakklæti fyrir að fá að fylgja ástvini þennan veg, eins langt og hann gat farið með honum áður en leiðir skilja.

Maðurinn talaði um hve merkilegt það væri, það væri eins og stórfjölskyldan væri öll tengd á einhvern annan veg þessa daga, það var dýpri innileiki sem birtist ekki endilega á sérstakan hátt í látbragði heldur í nærveru og skilningi.

Maðurinn sagði frá þessari líðan, hvernig það væri gott að finna í gegnum sorgina tilveruna dýpka, eignast þessa skýru sýn, vera vakandi.


Það er sönn saga að oft er það frammi fyrir þáttaskilum tilverunnar, við endi lífs okkar hér í heimi, sem við vöknum til meðvitundar um eðli lífsins á annan hátt.

Þannig er það sönn saga að algengasta ósk fólks sínar síðustu stundir snúast ekki um að fá að afkasta aðeins meira í vinnunni, eignast meiri peninga eða öðlast meiri ytri vinsældir.

Hjartans óskin er sú að hafa þau sem við elskum hjá okkur.


Það er bæn Jesú að kvöldi skírdags.

Jesús biður ástvini sína: ,,Vakið með mér.”

Hann er að biðja: ,,Getið þið verið með mér, getið þið veitt mér stuðning með nærveru ykkar og ást, getum við staðið saman, frammi fyrir ótta mínum, angist og kvíða?”

Sem sannur Guð og sannur maður ávarpar Jesús þennan veruleika:

Við erum sköpuð til tengsla, ekkert okkar fer veginn ein, ég vil ekki fara þennan veg án ykkar.

Jesús biður okkur: ,,Getið þið vakað með mér?”


Jesús kennir okkur að hafa hugrekki til þess að biðja um það sem við þörfnumst.

Vinir hans sofna, þrisvar sinnum biður Jesús vini sína að vaka með sér.

Tjáir þörf sína - og tjáir eins þá trú sem Jesús hefur á vinum sínum.

Trúna sem Jesús hefur á okkur.


Við lesum frásögn skírdagskvölds sem segir af ófullgerð, vanmætti, góðum verkum og vondum. Vinir bregðast á svo sáran hátt. Júdas svíkur. Pétur afneitar.

Hvort við höfum ekki sem kristin kirkja brugðist einhvern tímann á sama hátt?

Jesús horfði í augu vina sinna og í eins og í gegnum allt starf hans hjálpaði hann fólki að finna sig séð, með öllu hinu leiða og öllu hinu ljúfa.

Glansmyndasafn er ekki vinasamband.

Raunveruleg vinátta afhjúpar ófullgerð okkar - og kallar okkur til að elska áfram, þó við afsökum ekki eða breiðum yfir það sem verra er, það sem miður fer.

Það var eitthvað við reynsluna fyrir ástvini Jesú frá Nasaret sem varð þess valdandi að þeim tókst að lifa ekki ljósi reynslunnar, en ekki skugga.


Ljósið sem Jesús hafði gefið þeim lifði áfram með þeim í gegnum allt.


Guðspjöllin voru ekki skrifuð í hátt upphafinni fjarlægð fullkomnunnar heldur í augnhæð vináttunnar. Reynslan, sigrarnir og mistökin, allt hið fagnandi og allt hið ófullkomna, sárt en ekta; reynslan var ekki hjúpuð skömm og leynd.

Þegar við vöknum til meðvitundar um eigin ófullgerð stöndum við frammi fyrir tveimur valmöguleikum: Að hafna og afneita, sofna á ný… eða að horfast í augu við, finna fyrir harminum, treysta á hjarta Guðs sem slær með okkur í öllum aðstæðum okkar.

Breyskleiki okkar kann að koma okkur sjálfum á óvart, en ekki Guði.

Fortíðinni breytir engin og framtíðin er hugboð.

Við eigum aðeins þessa stund og nú er skírdagskvöld og við erum komin hér saman. Við munum koma hér saman að borði Drottins og þiggja Krist sem gaf okkur sakramentið, sem segir við okkur: ,,Ég vil vera hluti af þér, að þú sért hluti af mér.”

Fortíðinni breytir engin og framtíðin er hugboð.

Kær vinkona og kollegi sendi mér mynd, hún vakti athygli á því sem getur svæft okkur, þegar athygli okkar er föst á því sem fáum ekki stjórnað, eins og:

Gjörðum annarra, hvernig annað fólk sér okkur, við getum ekki breytt fólki, stjórnum ekki því hvenær vöxtur verður, við fáum ekki stjórnað framtíðinni, eða fortíðinni, við fáum ekki stjórnað Guðs tíma.

Það sem við þó getum haft áhrif á er:

Hvert við beinum athygli okkar; að trúa Orði Guðs, að lifa í bæn, að ganga í trú, við stjórnum eigin gjörðum og getum tekið ábyrgð hugsunum okkar. Við eigum val um að hvílast. Við getum elskað fólkið sem á vegi okkar verður.


Þá vökum við með Kristi.


Nú bíður föstudagurinn langi okkar.


Heimurinn vill svo oft að við sofum frammi fyrir þjáningu heimsins, í augum heimsins getur krossinn verið hlægileg heimska. En við höldum vakandi í heilagt táknið.

Afneitum ekki þjáningu heimsins, heldur horfumst í augu við hana, vanmetum ekki hve mikla sorg mannshjartað getur rúmað.

Í kvöld er krossinn hugboð, á morgun þjáningarfullur veruleiki, á páskadagsmorgni umbreyttur. Það sem áður meiddi missir allt vald, þess í stað vaknar fram innri sigur lífsins.


Kæru vinir,

við skulum vaka með Kristi.



Dýrð sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.

63 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page