top of page

Að rísa upp með Kristi



Kæru vinir, gleðilega páska!


Ég vil byrja á að lesa lauslega þýdda hvatningu írska ljóðskáldsins, heimspekingsins og prestsins John O’Donahue, sem féll frá árið 2008. Þessi orð prédikaði hann eitt sinn sjálfur á páskadagsmorgni og mig langar að hvetja okkur til að fylgja orðum hans eftir:


Á þessum páskadagsmorgni, skulum við horfa aftur yfir líf okkar sem okkur hefur svo örlátlega verið gefið. Við skulum leyfa okkur að sleppa tökum af þeim tilgangslausa farangri sem við berum - gömlum sársauka, gömlum ávönum, hinum gömlu leiðum til að sjá og finna - og veita sjálfum okkur leyfi til að byrja upp á nýtt.

Lífið er mjög stutt, við erum vart komin hingað fyrr en við kveðjum og við skulum nota tíma okkar til fulls, meðan við höfum hann enn.

Við áttum okkur ekki á öllu því góða sem við getum gert. Kærleiksrík, hvetjandi orð, eða hjálparhönd, getur stutt marga manneskjuna í gegnum dimman dal. Við vorum ekki send hingað til að safna peningum eða keppast eftir stöðu eða skapa okkur orðspor. Við vorum send hingað til að leita að ljósi páskanna í hjörtum okkar, og þegar við finnum ljósið eigum við að gefa af því örlátlega áfram.

Megi andi og ljós páskadagsmorguns blessa okkur öll, vaka yfir okkur og vernda á ferðalagi okkar, opna okkur leið frá myrkrinu til ljóssins sem er friður og von og umbreyting.


Friður. Von. Umbreyting.


Konurnar sem komu að gröf vinar síns og kennara upplifðu umbreytinguna og gáfu hana áfram. Þær sögðu af undrinu, urðu okkar fyrstu kristnu guðfræðingar, því þær heimfærðu reynsluna, fundu henni merkingu.

Gröfin er tóm.

Kallar líf þitt eftir nýjum frið, kallar hjarta þitt eftir von?

Finnurðu umbreytingu kalla á þig?

Eru einhver gömul munstur, gamall sársauki sem þú þráir að sleppa tökunum af, svo eitthvað nýtt geti orðið til?

Gæti verið að í dag hefjist þú handa við að skapa þér nýja fortíð?

Því upprisan getur orðið í eigin lífi. Gröfin er tóm.

Í gegnum öll guðspjöllin umbreytir Jesú fyrri skilningi fólks á lífi sínu, horfir í augu þeirra, sýnir því hvernig enginn þurfi að vera fórnarlamb fortíðar sinnar, fórnarlamb aðstæðna sinna, fórnarlamb allra þeirra munstra sem við kunnum að hafa þróað með okkur, munstur sem við leitum í okkur til verndar en þjóna okkur í raun ekki lengur.

Til þess að nýtt geti orðið þarf að sleppa tökunum af því sem engu þjónar lengur.

Það getur verið flókið og sárt að sleppa tökunum af því sem er kunnuglegt; því það er í eðli manneskjunnar að upplifa ótta við hið óþekkta.

Kannski er það þess vegna sem Jesús segir við okkur: ,,Hjarta yðar skelfist ekki.”


Upprisan getur orðið í eigin lífi og þau sem eiga þessa reynslu, hafa ferðast frá valdi myrkursins til þess ljóss sem veitir frið, sem veitir von, sem veitir umbreytingu, þau þekkja að sú reynsla kallar okkur til þjónustu. Við sjáum þetta birtast í visku hinnar andlegu leiðar 12-sporanna. Þar er 12. sporið að gefa áfram, að lifa í þjónustu. Spekingurinn Ram Dass sagði:

“Love All, Serve All, Remember God.”

Elskaðu öll, þjónaðu öllum, mundu eftir Guði.


Í guðspjallstextanum sem við heyrðum áðan voru þrjár persónur í lykilhlutverki komnar saman við tóma gröf Jesú. María Magdalena, Símon Pétur og svo er það persónan sem í guðspjallinu er kallaður ,,lærisveinninn sem Jesús elskaði.”

Og hver er þessi karakter, ,,lærisveinninn sem hann elskaði”?


Kenningar hafa komið fram að lærisveinninn sé Lasarus frá Betaníu, sem Jesús reis upp frá dauðum fyrr í guðspjallinu, önnur sú að það sé Jóhannes guðspjallamaður sjálfur, en svo er enn önnur kenning, sem mig langar að staldra við hér og nú.


Hún er sú að þessi persóna í Jóhannesarguðspjalli sé sá og sú sem heyrir guðspjallið. Sem lifir söguna. Tekur á móti frásögninni - og er þar með orðinn hluti af henni.

Það þýðir að lærisveinninn sem hann elskaði ert þú og ég.


Það ert þú sem hleypur í átt að gröfinni á páskadagsmorgni og finnur hana tóma.

Fyrr hafði Jesús á föstudaginn langa talað til móður sinnar og lærisveinsins sem hann elskaði. Jesús krossfestur talar til þeirra sem hann elskar, hann færir þau hvort öðru, segir við lærisveininn: ,,Nú er hún móðir þín.”

Í framhaldinu segir að lærisveinninn hafi tekið hana heim til sín. Hafi veitt móðurinni, sem hafði gengið í gegnum hinar óhugsandi þjáningar, skjól.


Það er þetta hlutverk sem okkur hefur öllum verið falið; að vera skjólgóð. 


Í gegnum söguna hefur stundum komið fram viðleitni til að réttlæta illskuna sem réð ríkjum á föstudaginn langa. Það sjáum við enn í veröldinni í dag.

Þá er reynt að segja að illska föstudagsins langa sé nauðsynleg til að sigur páskadagsmorguns eigi sér stað.

En dauði Krists á krossinum réttlætir ekki illskuna, heldur afhjúpar hana.

Við horfumst í augu við illskuna í veröldinni en látum ekki hugfallast því okkur sem þekkjum upprisuna hefur verið falið það verkefni að gefa áfram af þeim kærleika sem okkur hefur verið svo ríkulega gefinn.

Að horfa til þeirra sem lifa föstudaginn langa - dag eftir dag eftir dag eftir dag - og páskadagur ekki enn í sjónmáli. Ekki enn. Hvernig getum við veitt þeim skjól?


Í Jerúsalem óttaðist presturinn Bernard Poggi sem þjónað hefur palestínskum kristnum þar í borg undanfarin tíu ár að þeim yrði meinað að koma saman í bæn, þau myndu streða við að leita leiða til þess.

Á Gaza streða öll við að reyna að lifa, nú hefur óhugsandi hungursneyðin bæst við þjáningu þeirra.


Hér syngjum við saman svo oft orðin úr sálmi Sigurbjörns Einarssonar biskups Eigi stjörnum ofar:

,,Hvar sem þrautir þjaka, þig ég heyri biðja:

,,Viltu veikan styðja, vera hjá mér þar?””


Ég veit að á hverjum morgni vöknum við og vonum áfram að heimurinn allur fái að þekkja páskadagsmorguninn með okkur. Að við fáum að uppgvötva og undrast, að við verðum samferða, að við finnum frið, von, umbreytingu.

Að við rísum upp, með Kristi.


,,Eins og sól sem rennur upp um nótt og gegnum myrkrið skín og bjartan daginn kveikir skjótt ertu sólin mín.”

(sl. 503, Jesús, engar helgimyndir e. Ísak Harðarson)


Dýrð sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.


(Falleg myndin er e. Maríu Hjálmarsdóttur.)

49 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page