top of page

Að nærast af vindinum

Hefurðu rekist á það sama og ég, hvað það getur verið óheppilegt að fara svangur út í búð? Ég hef tekið eftir því að ef ég er illa nærður, er ekki að hugsa nógu vel um sjálfan mig, þá leita ég í óhollari næringu. Sæki meira í skyndibitann, meira í sykurinn. Gleymi reglunni; allt er gott í hófi. Það verður erfiðara að vanda valið. Hvað nærir þig, hvernig velur þú? Hefurðu tekið eftir því hvað það er óheppilegt en algengt hjá manneskjunni, okkur er hættara við því eftir því sem við erum þreyttari að sækja okkur verri næringu í samskiptum okkar? Jesús var 40 daga í eyðimörkinni, mætti freistingum. Við förum nú veginn saman, það er tími föstunnar, 40 dagar fram að páskum. Finnurðu hve freistandi það getur verið, að velja sér næringu sem byggir ekki upp, heldur brýtur niður? Samskipti sem byggjast á slúðri, gremju, illu umtali, hatri… þau geta verið svo freistandi. Eins og skyndilausn, máltíð sem þú veist að er þér ekki holl, bragðast bara í fyrstu svo rosalega vel, er ánetjandi, en svo færðu illt í magann. Líkaminn ber svo mikla visku, heyrirðu í henni? Hvernig líður þér, ertu vel nærð manneskja? Það er fjórði sunnudagur í föstu, Laetare merkir gleðstu. Í því orði finnum við leiðbeiningar til okkar, þar sem við heimsækjum texta sem snúast næringu, um brauðið. Það er næringin sem vekur innri gleði, veldur ekki skaða. Kristur talar um næringuna sem við eigum í sér, þróttinn sem líf með Guði gefur okkur. Hér er verið að ræða innri umbreytingarferli. Andlegan og trúarlegan vöxt, þegar við tökum á móti Krist, meðtökum leyndardóm trúarinnar. Ég hef tekið eftir tilhneigingu hjá sjálfum mér, sem gæti kallast vanmat. Ég hef rætt við kollega um þessa tilfinningu, þegar maður horfir á Biblíutexta sem á að lesa og hugsar: Ó, boy, hvernig eigum við að fara að þessu? Stundum geta textarnir virkað nefnilega svo innilega furðulegir á mig, sko, trúarbrögð eru auðvitað bara ,,furðulegt” fyrirbæri (og reyndar eiga að vera það!) …En þá kemur fram líka þessi ógagnlega varnarstaða þess sem er samt þokkalega vel meinandi; vill kirkjunni sinni vel. Birtist stundum í spurningunni: Hvernig gerum við þetta aðgengilegt nútímanum? Ég held að þessi tilhneiging geti gert að verkum, að við smættum á stundum leyndardóm trúarinnar niður í ofureinfaldaðan siðferðisboðskap. Ég held að stundum komum við að okkur í kirkjunum að leitast við að selja starfið í kirkjunum út frá afkomu- og orðsporsótta en ekki eldmóðnum sem fylgir því að treysta góðu fréttunum, fagnaðarerindinu. Ég held, nei ég veit, að ég hef sjálfur oft gerst sekur um þetta. Ég fer reyndar að hugsa um eina klassíska leið, sem einmitt tengist næringu. Svo er mál með vexti að gamalt trix í æskulýðsbransanum er að panta pizzur á fyrsta fundi æskulýðsfélags að hausti og þegar ég byrjaði að starfa í æskulýðsstarfi á sínum tíma gripum við grimmt í þetta. Á enskunni eiga þeir frasann “foot in the door” tengt vel heppnaðri sölumennsku, hér erum við að tala um “pizza on the floor”. Það sem gerðist gjarnan þá, held að ef ég væri að ræða við æskulýðsfulltrúa myndu mjög margir kinka kolli og tengja; það mættu á fyrsta fund þvílíkur fjöldi - því erum við ekki öll til í fría pizzu? En hver voru það sem mættu þegar voru engar veitingar, ekki pizzur, kleinuhringir, heldur kannski bara í mesta lagi kirkjudjús? Þau voru yfirleitt töluvert færri, en það var yfirleitt þá sem undrið í starfi varð til, allar þessar ótrúlegu gjafir og sá andlegi vöxtur sem getur orðið til í starfi með unglingum. Þetta er svo mennskt og þetta er svo skiljanlegt, ekki síst þegar við lifum í neyslusamfélagi sem leggur ofuráherslu á ytra líf en ekki innra og allt það sem varðar innra lífið er einnig orðin kapitalisk afurð, “lifehack”, sem hægt er að selja til neyslu eins og hvað annað. Ég skil þetta vel, ég er mjög reglulega á þeim stað, oftar en ekki hreinlega, að mig langar meira að rækta samband mitt við pizzastaði heldur en rækta meðvitað samband mitt við Guð. En þegar ég vanræki að næra mitt andlega líf, þá týnist ég. Þá skapast hungur og þorsti sem ég get orðið heyrnarlaus á, skynja ekki nógu vel. Því það er hungur og þorsti, eftir þeirri næringinu sem er leyndarmál trúarinnar. Næringin sem er Kristur. Hér er ekki verið að ræða mannát. Guðspjall Jóhannesar gerir endurtekið nett grín að bókstafstrú, en vill fara með okkur á táknrænna og dularfyllra dýpi. Við sjáum það t.am. Í 3.kafla Jóhannesarguðspjalls. Fariseinn Nikódemus kemur að hitta Jesú að næturlagi og þegar Jesús segir honum að enginn geti séð Guðs ríki nema fæðist að nýju. Nikódemus heyrir þetta bókstaflega og spyr: „Hvernig getur maður fæðst þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“ Jesús svarar: ,,Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda.” Svo segir Jesús: ,,Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.” Slíkur er leyndardómur trúarinnar. Eins og vindurinn, ósýnilegt afl, en við finnum sannarlega fyrir því. Á stundum er þessi dularfulli vindur trúarlífs okkar eins og örlítil gola, stundum finnum við blása kröftuglega. Það er leyndardómur trúarinnar sem við mætum, þegar við komum hér saman til altaris með tvær hendur tómar. Við réttum fram lófa okkar og við göngumst við þessum kjarnastaðreynd tilverunnar sem við erum flest yfirleitt að reyna að horfast ekki í augu við. Það er þessi staðreynd: ,,ég get þetta ekki ein/n” Það er sjaldan í þessum veruleika sem manni virðast öll önnur hlutverk lífsins víkja, en það er eitthvað merkilegt sem gerist við altarisgöngu, á stundum eins og allt víki, allt annað en sá kjarni að við tilheyrum lífinu, við tilheyrum öll hvort öðru, þegar allt kemur til alls, við tilheyrum Guði. Guði sem nærir okkur í altarisgöngunni, Guði sem þráir að við finnum hvíld í sér. Og við það getum við eignast reynslu sem umbreytir okkur. Við meðtökum Krist. Já, við erum ekki að tala um mannát, við erum að tala um leyndardóma trúarinnar. Þetta kann nú allt að virðast skrýtið.


Eigum við ekki kannski að tala einmitt um eitthvað skrýtið, sem skiptir samt máli, eitthvað sem við erum kannski ekki nógu dugleg við að segja hreint og beint út?



Við erum andlegar verur.


Innra með þér og mér eru víddir sem við gefum sjaldan gaum, við gefum sjaldan rými.

Þar er að finna veruleika og sannleika tilverunnar, vöxt, grósku, dýrð sköpunarorkunnar, ljóma máttarins. Ljós Guðs, í þér.

Það er raunverulegur kraftur.


Saga trúarinnar er ekki sagnfræði, í þátíð. Hún er lifandi veruleiki, hér og nú; í þessari kaotísku og sársaukafullu veröld er Guð að störfum.

Guð er að störfum í þér, kærleikur Guðs, þessi heilagi andi, þráir að fá að vaxa fram áfram.

Ráðgáta og sigur trúarinnar er að þá má vera að við upplifum þessi orð verða veruleika í lífi okkar, orðin sem Jóhannes skírari sagði um Krist, í upphafi Jóhannesarguðspjalls:


,,Hann á að vaxa en ég að minnka.”



Dýrð sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

34 views0 comments

Recent Posts

See All

ความคิดเห็น


bottom of page