top of page

Örugg, í Guðs ríki. - Útvarpsprédikun, 8.10.2023
,,Ég held að þetta hafi gerst því að peningar rugla í hausnum á manni”

sagði ein af aðalpersónunum í sjónvarpsþáttunum Painkiller, sem sýndir eru á Netflix og taka til umfjöllunar Oxycontin faraldurinn og starfsemi Purdue pharma, lyfjafyrirtækis Sackler fjölskyldunnar sem hannaði Oxycontin. ,,Ég held að þetta hafi gerst því að peningar rugla í hausnum á manni.” Að vera manneskja er að vera viðkvæm vera. Það er auðvelt að álykta að þáttaröðin fjalli um eina formgerð fíknar; ópíóðafíknina sem við erum að sjá hafa svo grimmar og sárar afleiðingar, eins hér á landi þar sem við erum að sjá allt of mikið af fólkinu okkar tapa lífi sínu. Það er auðvelt að álykta að þættirnir fjalli aðeins um þá fíkn en þegar betur er að gáð sést að þættirnir eru í raun að taka til umfjöllunar aðra fíkn sem við sem samfélag tölum oftar óbeint um heldur en beint. Það er peningafíkn. Að vera manneskja er að vera viðkvæm vera og við erum öll viðkvæm fyrir gambling kerfi heilans. Það getur átt sér margar myndir en lykilorðin eru öryggi, völd, metnaður, status, spenna. Gullkálfurinn er víða og hann er tilbeðinn enn. Í guðspjalli dagsins kemur maðurinn hlaupandi, fellur á kné. Það birtir örvæntingu, það birtir fúsleika. Hann virðist allt vilja gera til að öðlast hið eilífa líf, þegar Jesús svarar honum virðist honum í fyrstu að hann gæti hafa tryggt sig, í eigin mætti, af eigin afli; ,,Alls þessa hef ég gætt”, segir hann. ,,Ætli ég sé þá ekki öruggur?” Gæti hann verið að spurja sig, ,,hef ég ekki í eigin vilja og valdi tryggt mig inn í Guðs ríkið?” En örvænting og fúsleiki víkur skjótt þegar Jesús skorar á hann að gefa eftir það öryggi sem maðurinn á í auðæfum sínum. Þá skín í gegn afkomuóttinn, sem virðist svo oft ekki víkja þó manneskjan eigi yfirdrifið nóg. Já, hvenær er nóg - nóg? Hvernig eru tengsl okkar við peninga, við auð? Eitt af lykilorðunum sem minnst var á áðan var þetta: Öryggi. Hvar finnum við öryggi? Á hverju byggjum við öryggi lífs okkar? Sjálfsmynd okkar; hvað skilgreinir okkur? Hver manneskja þarf að fá grunnþörfum mætt, upplifa sig örugga; eiga afkomuöryggi, fæðuöryggi, félagslegt öryggi… þessum þáttum og fleiri þarf að mæta, en langtímarannsókn Harvard háskóla hefur sýnt að peningar bæta ekki miklu við hamingju okkar eftir að grunnþörfum er mætt. Tengsl gera það. Í gegnum guðspjöllin er Kristur sífellt að skora á okkur að skoða tengsl okkar, við Guð, við okkur sjálf, við annað fólk og umhverfi okkar. Stöðugt ögrar Kristur hugmyndum okkar um hvar við finnum öryggi, skorar á okkur að eiga grundvallandi öryggi okkar í því trausti að vera Guðs börn.

Allar fíknir fela að miklu leiti í sér leit að öryggi. Þá er sama hve skaðlegt fíknisambandið er orðið manneskjunni, tengslum hennar við sjálfa sig, aðra, Guð, fíknin hefur tekið sæti drottnara, orðið skurðgoð í lífi manneskjunnar. Þó manneskjan þrái í hjarta sínu ekkert heitar oft en að rjúfa hringrás fíknarinnar, þá verður kunnugleiki hringrásarinnar öryggi í sjálfu sér.

Flest eigum við okkur bjargráð, þekkjum þá eins þann veruleika að bjargráð okkar geta verið okkur bæði gagnleg og ógagnleg. Læknirinn Gabor Maté segir að við ættum ekki að spurja hvers vegna fíknin, heldur hvers vegna sársaukinn? Hvaðan kemur sársaukinn í lífi okkar? Hvaðan kemur óttinn? Og hvert er öryggisviðbragð okkar? Er það okkur gagnlegt, eða ógnar það tengslum okkar við sjálf okkur, aðra, ógnar það tengingu okkar við Guð? ,,Þeim mun ríkari sem við höfum orðið efnislega, þeim mun fátækari höfum við orðið siðferðislega- og andlega. Við höfum lært að fljúga um loftin eins og fuglar og að synda í sjó eins og fiskar, en við höfum ekki lært þá einföldu list að lifa saman sem bræður” - Þessa setningu sagði Martin Luther King árið 1964. Fjölmörg ár hafa liðið, misskipting auðs hefur aldrei verið meiri, á meðan auðæfin eru sum staðar svo gríðarleg er fátækt enn sár veruleiki hér á landi. 1.október síðastliðinn birtist frétt að norðan, frá Akureyri, þar segir Sigrún Steinarsdóttir frá því hve vör hún hefur orðið við aukningu fátæktar í samfélaginu, en Sigrún hefur haldið utan um Facebook hópinn ,,Matargjafir á Akureyri og nágrenni” í átta ár. Í guðspjallinu segir: Jesús horfði á manninn með ástúð og sagði við hann: ,,Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.” En hann fór burt, dapur í bragði. ,,Fátækt hefur aukist mjög mikið”, segir Sigrún Steinarsdóttir í viðtalinu á RÚV. ,,Það geta allir lent í einhverju og fólk á alls ekki að skammast sín.” Yfir fátækt á ekki að ríkja skömm. Yfir sambandi okkar við peninga, hvernig sem samband okkar er, ætti ekki að ríkja skömm, því á meðan heilbrigð stundleg skömm getur sannarlega verið leiðbeinandi tilfinning þá verður viðvarandi skammarmiðuð nálgun ekki til að auka heilbrigði okkar og frelsa, heldur fjötrar okkur og eitrar. Breytingin þarf að gerast innan frá og hún þarf að vera heilandi. Enda er það varla svo að peningar séu í eðli sínu illir, sem slíkir, eða hvað? Er það ekki mun frekar umgengni okkar og á stundum tilbeiðsla við peninga sem verður til ills, fyrir aðra og fyrir okkur sjálf? Það er ekki endilega það að þú sért ríkur sem gerir þig fjarlægan Guðs ríki, það er að setja allt þitt traust á ríkidæmi sem fjarlægir þig Guðs ríki. Eitt það fegursta sem hægt er að upplifa og mæta í manneskjunni, þó ljúfsárt sé, eru óskir okkar um að ástvinir okkar fái friðsælt andlát, óhrædd, upplifi sig örugg og umvafin, þegar kallið kemur. Á þeim stundum sýnir sig að innistæðan á bankabókinni skiptir ekki máli, en nærveran gerir það. Þessi ósk, óskin um að vernda og varðveita reisn manneskjunnar við dánarbeð hennar, óskin um að hún finni sig örugga, eigi frið, er svo sterkt stef í manneskjunni og þegar öllu er á botninn hvolft getur ekkert veraldlegt ríkidæmi tryggt það, það megnum við ekki í eigin vilja, af eigin verðleikum.

„Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“ segir Kristur í guðspjalli dagsins.


Annað stef, ekki síður fagurt, sem við sjáum oft í samfélagi mannfólksins er í þrá okkar eftir að börn finni sig örugg. Þegar við erum að fást við Guðspjallstexta eins og þann sem við erum að fást við í dag getur reynst gagnlegt að skoða hvaða textar eru í kring. Ef auðmanninum reynist svo torvelt að taka á móti Guðs ríki, getum við fundið einhverjar vísbendingar um hver það eru sem eiga gott með að taka á móti Guðs ríki? Í samstofna guðspjöllunum þremur, guðspjöllum Matteusar, Markúsar og Lúkasar, er að finna frásögn á undan þessari sem við heyrðum áðan, hún er alltaf staðsett á undan þessari. Það er frásögn sem við heyrum þegar börn eru borin til skírnar. Það er frásögnin sem segir af því þegar börn voru færð til Jesú, þegar þeim er haldið frá Jesú, frásögnin af því þegar Kristur segir: ,,Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” Berskjaldað og varnarlaust barnið, það þekkir Guðs ríki. Meistarinn frá Nasaret hefur snúið öllu á hvolf, fyrri hugmyndum okkar um vald og valdleysi.

Því sleppir þú tökunum af því að keppast eftir valdi, þá kynnistu krafti.

Rithöfundurinn C.S. Lewis sagði: ,,Þótt við trúum ekki lengur á flata jörð eða höll á himnum verðum við að hamra á því frá upphafi að við trúum á andlegan veruleika sem ekki bara getur heldur hefur brotist inn í þennan alheim.”

Djúpt inn í hjarta þínu er að finna stað. Þar sem ekkert er eftir, en allt býr. Þar sem ljós skín, það er uppspretta Guðs. Sem þú ert hluti af. Það er ekkert sem þú getur gert til að komast þangað, því þú kemur þaðan. Því er auðvelt að gleyma, svo mikið af lífinu snýst um að muna þetta. Þegar þú finnur fyrir þessari óræðu heimþrá, þá er það sálin að minna sig á. Uppsprettuna, innra með þér. Kristur segir: Ekki munu menn segja: ,,Sjá, þar er það eða hér er það því að Guðs ríki er innra með yður.“


Það eina, sem er alveg öruggt, er að öll erum við Guðs börn.


Dýrð sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.


60 views0 comments

Comentarios


bottom of page